„Ég vil nýta reynslu mína úr borgarmálum, meðal annars til að berjast fyrir hagsmunum Reykvíkinga á þingi.“
Um Hildi Sverrisdóttur
Hildur Sverrisdóttir er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Áður var hún varaborgarfulltrúi frá 2010. Hún situr í umhverfis- og skipulagsráði, mannréttindaráði og stjórnkerfis- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar. Hildur er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Sjálfstæðisflokksins.

Hún er tæpra 38 ára og lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hildur hefur jafnframt lokið námi sem viðurkenndur stjórnarmaður við Rannsóknarmiðstöð í stjórnarháttum við Háskóla Íslands. 

Hildur starfaði lengi sem lögfræðingur og lögmaður hjá fjölmiðlafyrirtækinu 365. Með laganámi starfaði hún sem framkvæmdastjóri V-dagsins, sem berst gegn kynferðisbrotum og einnig sem framkvæmdastjóri Reykjavík Dance Festival. Þar á undan gegndi hún stöðu verkefnisstjóra Jafningjafræðslunnar fyrir ÍTR og menntamálaráðuneytið. 

Hildur hefur starfað erlendis, meðal annars á lögmannsstofu í London og í flóttamannabúðum í Serbíu. Hildur skrifaði um árabil bakþanka í Fréttablaðið. Hún ritstýrði metsölubókinni Fantasíur sem kom út sumarið 2012.